
Þegar líða tekur á febrúarmánuð, þá fer smátt og smátt að vora í Miðevrópu. Vetur hérna geta verið ósköp gráir og þó svo að grasið haldist mest megnis grænt, þá tekur það einhvern veginn í sig þennan gráa tón þannig að það getur verið auðvelt að hætta að sjá þetta eina merki um það í náttúrunni að það muni vora á ný. Fyrsta helgin í mars, helgin sem Vorguðsþjónustan er oftast nær haldin í Lúxemborg, er alveg ótrúlega oft sú helgi sem að hlýir vindar ná að víkja burtu kuldanum og grámanum og sólin skín í heiði og minnir okkur á að lífið sigrar. Hún vermir jörðina, sendir geisla sína inn í kirkjuna okkar litlu og alla leið inn í hjörtun okkar. Og þannig var það einmitt líka þegar Íslenski söfnuðurinn í Lúxemborg kom saman fyrsta sunnudag í marsmánuði til þess að lofa Guð og þakka.
Söfnuðurinn í Lúxemborg er að mörgu leiti ekkert ólíkur söfnuði í íslenskri sveit og kirkjan sem við þjónum í er einmitt uppi í sveit. Hún er lítil og látlaus og það fer vel um söfnuðinn í henni. En það er ekki bara það sem er líkt með söfnuðinum og sveita söfnuðum, heldur er margt annað líkt. Eitt af því sem er líkt er kórinn. Í litlum sveitasöfnuðum er kórastarfsemi grundvöllurinn fyrir kirkjustarfinu. Án kórsins væri starfið litlaust og fátæklegt. Fólkið sem syngur í kórunum gerir það bæði af tryggð við kirkjuna sína og vegna þess að það hefur gaman af því að koma saman, syngja og eiga gott samfélag. Í Lúxemborg (og reyndar London líka), finn ég mjög vel fyrir því hversu mikil tryggð við kirkjuna og kirkjustarfið ríkir meðal kórmeðlima. Í Lúxemborg er kórinn lítill og hann skipa eingöngu konur. En þessar konur eru ekkert venjulegar. Þær standa með prestinum sínum og taka ásk0runum eins og íslenskar Björgunarsveitir. Það er ekkert auðvelt, í fámennum kór þegar presturinn ákveður að þennan sunnudaginn skuli sungnir nokkrir nýjir sálmar sem enginn þeirra hefur áður heyrt. Það tekur tíma að æfa og læra nýjar raddir og það tekur á að vera bara nokkrar í hverri rödd og stundum er kórstjórinn strangur og kórmeðlimir uppgefnir og óöruggir á æfingum. Svo kemur að Guðsþjónustunni og þá syngur kórinn eins og hann hafi bara alltaf kunnað þessa sálma og eins og hann æfi nokkrum sinnum á dag. Söfnuðurinn sem á bekkjunum situr og presturinn sem horfir hálf klökkur yfir söfnuðinn og kórinn, af þakklæti og stolti, eru kannski ekki alltaf alveg meðvitaðir um það hversu mikla vinnu kórmeðlimir hafa lagt í sönginn, hversu mikla orku og þor þær hafa gefið söfnuðinum og kirkjunni sinni. Við fáum að njóta útkomunnar og getum hvílt í lofsöngnum þeirra. Í hvert sinn sem ég stend þarna fremst og hlusta á kórinn, fyllist ég annars vegar mikilli auðmýkt yfir því að fá að vera hluti af söfnuðinum, að fá að hlusta á afrakstur vinnu kórsins og hins vegar þakklæti yfir því að þær séu tilbúnar að leggja svona mikið til, til þess að við getum átt svona góðar stundir saman í kirkjunni. Guð blessi þær fyrir þetta dásamlega framlag til kirkjustarfsins.
En við fengum að njóta annarrar tónlistar líka þennan fallega sunnudag því við fengum heimsókn frá henni Maríu Sól Ingólfsdóttur, sem hefur komið og glatt okkur með nærveru sinni nokkrum sinnum í vetur. María Sól er að ljúka söngnámi í Saarbrücken í Þýskalandi og er með einstaklega fallega rödd sem snertir strengi hjartans og fyllir kirkjuna af heilögum anda. Hún er ekki bara dásamleg söngkona heldur hefur hún yfir svo hlýjum persónuleika að búa og hún hefur verið boðin og búin að aðstoða okkur við að finna tónlistarfólk þegar við höfum verið í vandræðum. Hún kom með tvær dásamlegar ungar konur með sér, þær Daphné Macary, Mezzosopran sem söng með henni dúett og Sarah Bauer sem lék á gítar og söng. Það er eitthvað alveg einstakt við það að vera í hjarta Evrópu á sunnudegi að vori og hlusta á Maístjörnuna sungna við blíðan gítarleik. Það vekur einhverskonar blíða heimþrá, með endalausum minningum um Ísland og vorið sem er svo lengi að koma en um leið vonina um að ,,í kvöld ljúki vetri, sérhvers vinnandi manns" að það séu betri tímar framundan. Og er það ekki einmitt það sem við erum öll að vonast svo mikið til, að nú fari vetri mannkynsins að ljúka, vetri þeirra vinnandi, vetri þeirra sem líða og þjást, vetri illsku og mannvonsku. Erum við ekki öll að vona að nú fari að vora, að það fari að grænka og að hið góða fari að ná yfirhöndinni. Við skulum halda í þá von nú á föstunni og við skulum vera eins og kórinn litli í Lúxemborg sem tekur áskorununum með jafnaðargeði, sem vinnur sitt góða starf og leggur sig fram um að gera tilveruna okkar hinna örlítið betri. Við skulum vera vongóð og vinna að því að að lífið sigri og illska og hatur líði undir lok. Við skulum vera rödd Jesú á dimmum tímum. Nú eru dimmir tímar, en bráðum vorar og við skulum gera okkar til að vera rödd hins góða.
コメント